Samstarf leik- og grunnskóla er ætlað til þess að auðvelda nemendum tilfærslu milli skólastiga og stuðla að farsælli skólabyrjun við sex ára aldur. 

Samstarf skólastiga 
Samstarf Egilsstaðaskóla og Tjarnarskógar um farsæla skólabyrjun veturinn 2022-2023. 
Markmið samstarfsins:

  • Að auðvelda nemendum tilfærslu milli skólastiga og stuðla að farsælli skólabyrjun við sex ára aldur.
  • Að fimm ára nemendur kynnist nemendum, starfsfólki og umhverfi Egilsstaðaskóla samhliða skólagöngu sinni í Tjarnarskógi og stuðla þannig að vellíðan og öryggi nemenda við að fara á milli skólastiga.
  • Að skapa farveg fyrir miðlun upplýsinga á milli skólastiga. 
  • Að auðga skólastarfið á báðum stigum og efla félagsleg tengsl.
  • Að nýta sérstöðuna og það umhverfi sem við búum við. 

Fimm ára nemendur í Tjarnarskógi heimsækja Egilsstaðaskóla og nemendur Egilsstaðaskóla fara í heimsóknir í leikskólann. Nemendur leikskólans kynnast sérstaklega tilvonandi vinabekk sínum, sem er 5. bekkur og nýta sér aðstöðu á leikvelli við Egilsstaðaskóla yfir veturinn. Einnig er nemendum leikskólans sérstaklega boðið að koma í grunnskólann, ásamt kennurum sínum, í þeim tilgangi að kynnast skólaumhverfinu og nýta sér hina góðu aðstöðu í verkgreinastofum skólans og á bókasafninu. Inni í þessum heimsóknum er einnig samstarf við tónlistarskólann. 

Í september/október koma nemendur 1. bekkjar í heimsókn í leikskólann og sýna 5 ára nemendum skólatöskuna sína og námsbækur. Í október er líka orðið fast samstarf í tengslum við Bras, þá syngja nemendur saman í kirkjunni. Í nóvember fara nemendur leikskólans í heimsókn í Egilsstaðaskóla, taka stjórnendur skólans á móti hópnum og leiða hann um skólann. Í nóvember er  heimsókn á Bókasafnið. Hún er í  tengslum við dag íslenskrar tungu en þá lesa nemendur í 7. bekk stutta bók fyrir nemendur leikskólans en í seinni heimsókninni fara nemendur í litlum hópum og hitta bókasafnskennara. Í janúar og febrúar fá nemendur leikskólans að kynnast faggreinum og í febrúar verja þau kennslustund með nemendum í 1. bekk og vinna að spennandi verkefnum. Í mars eru tvær heimsóknir, sú fyrri er í Tónlistarskólann og sú seinni er boð á generalprufu fyrir árshátíð 1.-3. bekkjar. Í apríl fá nemendur leikskólans að taka þátt í íþróttatíma undir stjórn íþróttakennara. Þau fara ekki í sturtu eftir íþróttatíma en þurfa að skipta um föt í fataklefa. Í apríl/maí hitta nemendur leikskólans verðandi vinabekk sinn, sem er 5. bekkur, í útileikjum. Í lok maí koma nemendur leikskólans í Egilsstaðaskóla og dvelja þar í hálfan dag við vinnu verkefna undir stjórn kennara sem verða kennarar í 1. bekk að hausti. Skilafundur Tjarnarskógar til Egilsstaðaskóla vegna nemenda í verðandi 1. bekk er í ágúst.