Í Tjarnarskógi er unnið með bókina Lubbi finnur málbein og er hún hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Höfundar bókarinnar, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru talmeinafræðingar og hafa áralanga reynslu af talþjálfun barna. Í bókinni nýtist sérfræðiþekking þeirra bæði börnum sem glíma við erfiðleika í máltöku og hinum sem læra málið án vandkvæða. Efnið stuðlar einnig að auðugri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð.

Í bókinni er sérhvert málhljóð kynnt með stuttri sögu, skemmtilegri vísu eftir Þórarin Eldjárn og glæsilegum myndum eftir Freydísi Kristjánsdóttur

Lubbi finnur málbein - Lubbi finnur málbein

 

Hver er Lubbi?

Lubbi er íslenskur fjárhundur. Hann er duglegur að gelta og þá heyrist ,,voff - voff."  En Lubba langar mikið til að læra að tala. Þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Hann veit að þegar hann hefur lært þau öll losnar um málbeinið og hann getur leyst frá skjóðunni. Hann hefur örugglega frá mörgu að segja. 

En hvernig getum við hjálpað Lubba að læra íslensku málhljóðin? Best finnst honum að naga bein og þess vegna líta málhljóðin út eins og bein.

Í hverri viku er eitt til tvö málhljóð tekið fyrir ásamt sögu sem tengist þessu málhljóði og ferðalagi Lubba. Einnig er hreyfing sem börnin læra sem hjálpar að festa nýja málhljóðið í minnið. Hér er hægt að fræðast meira um bókina Lubbi finnur málbein. Hægt er að hlusta á lögin og sjá hreyfingarnar fyrir hvert og eitt málhljóð hér á youtube rás Lubba.